Af þrælmennum

Lífsbaráttan á Norðurlöndum hefur ekki verið neitt grín í fornöldinni. Allir dagar voru tómt strit og streð, veturnir voru martröð en sumurin sárabót. Fólk hefur verið mikið innilokað yfir veturinn. Húsakynni voru slæm og fólk hrúgaðist saman í opnum skálum sem voru illa einangraðir og kynntir með opnum eldi. 

Mengunin þarna inni hefur verið eins og á aðalfundi hjá Samtökum Stórreykingamanna enda sýna fornleifarannsóknir að flest fólk virðist hafa verið haldið öndunarfærasjúkdómum. Þetta hafa líka verið agaleg pestarbæli þar sem hungrað fólk lá hóstandi og hrækjandi hvert innan um annað, súpandi vatn úr sömu skálinni og skaust rétt út fyrir til að míga og skíta. 

Það var ekkert leirtau á þessum bæjum og flestir átu bara með höndunum það sem þeir tíndu úr eldinum. 

Þegar orðið skál varð til

Ég hef engar sannanir fyrir því en mig grunar að þarna hafi uppruni orðins skál orðið til. Það var bara ein skál til, einhver fór út og sótti vatn í skálina og svo var hún látin ganga milli fólks. Til að tryggja að allir drykkju var hrópað Skál! til að drepa fólk úr dróma og vekja þá sem sváfu. 

Ég held að þetta hafi byrjað með vatni. Fólk fékk stundum áfenga drykki og þá voru þeir drukknir með sama hætti og úr nákvæmlega sömu skálinni. Sami grautur í sömu skál, eins og orðtakið segir. Lýsnar og flærnar hljóta að hafa haft það gott þarna. Þetta hafa verið uppeldisstöðvar fyrir allskonar vírusa og bakteríur. Sjúkdómar og dauði voru algengur og eðlilegur hluti af daglegu lífi. 

Fólk hefur lifað við aðstæður sem gengu í bága við allar sjálfsagðar heilbrigðisreglur sem við nútímafólk erum vön við. 

Óttablandin tilhlökkun á meðgöngu

Lífslíkur voru langt frá því sem við þekkjum í dag. Flestir sem lifðu af sína eigin fæðingu dóu á fyrsta árinu. Ekki þekki ég nákvæmar tölur en ein algengasta dánarorsök kvenna var barnsfæðing. Meðganga hlýtur af hafa verið nokkuð óttablandin tilhlökkun og 50/50 að barn og móðir lifðu það af. 

Ef barn lifði af fyrsta árið hafði það möguleika á að ná háum aldri sem á þeim tíma var samt ekki nema 50-60 ár. Menn voru taldir vopnfærir til fimmtugs. Sextugt fólk var öldungar og mjög sjaldgæft að fólk lifði eitthvað fram yfir það. 

Það var ekki bara af líffræðilegum ástæðum heldur líka menningarlegum. Þegar fólk var orðið svo aldrað eða lélegt til heilsunnar að það gat ekki unnið þá hætti það bara að fá að borða, taldist ekki lengur til matvinnunga og var bara látið hægt og rólega svelta í hel. 

Þetta var ekki gert af mannvonsku heldur frekar neyð. Í sumum tilfellum var gamalt fólk bara borið út á guð og gaddinn eða hreinlega drekkt eins og kettlingum í poka eða fleygt fyrir björg. 

Minnti á útrýmingarbúðir

Matur var af skornum skammti og honum var útdeilt eftir ákveðnu kerfi. Hraustir karlar og sveinbörn fengu hlutfallslega mest, konur og stúlkubörn aðeins minna og aumingjar talsvert minna. Fornleifarannsóknir sýna að flestar konur voru vannærðar. Mjög veikt fólk var oft borið út svo aðrir smituðust ekki af því, jafnvel bundið við tré og ekki leyst fyrr en það hafði annað hvort drepist eða jafnað sig. Þetta var blómaskeið umgangspesta og hræðilegra sjúkdóma sem við höfum jafnvel ekki heyrt um eins og skyrbjúgur og blóðkreppusótt. Það hafa margir verið horaðir og tannlausir. Þegar ég les heimildir og rannsóknir frá þessum tíma og reyni að ímynda mér þessar aðstæður þá detta mér helst í hug bíómyndir sem gerast í útrýmingarbúðum Nasista. Það hefur ekki verið ósvipuð stemningin í sumum skálunum í Mæri og Romsdal árið 640 og í Treblinka 1.300 árum síðar.

Eftir hræðilega langan og kaldan vetur, þar sem mikil afföll voru á fólki, tók við sumar sem einkenndist aðallega af vinnu. Þetta hefur samt meira verið í ætt við strit þar sem fólk þrælaði með handafli og hörku og venjulegur vinnudagur hófst líklega strax við sólarupprás og lauk ekki fyrr en við sólsetur og að streða 12-18 klukkutíma dag hvern. Vinnuslys hafa verið algeng í öllu þessu havaríi og djöfulgangi. 

Hræðileg blót

Stéttaskiptingin í fornaldarsamfélagi Norðurlanda sýnist mér ekki hafa verið sérstaklega flókin eða margslungin. Efst trónuðu höfðingjar sem voru misjafnlega vel efnaðir karlar sem stýrðu svokölluðum garði eða búi. 

Fjölmennasta stéttin hefur verið bændur og búalið, fólk sem vann og lifði á garði höfðingjans. Það var höfðingjans að skipuleggja, hvetja sitt fólk til dáða en ekki síst að taka ákvarðanir sem vörðuðu hag fjöldans og til framtíðar. Fólkið hefur líka treyst á sinn höfðingja að verja það fyrir þjófaflokkum og öðrum höfðingjum. Höfðinginn hefur ekki bara verið verkstjóri heldur líka andlegur leiðtogi hópsins sem sá til þess að halda góðu sambandi við guði og vættir. Í hinum andlegu efnum leituðu höfðingjarnir leiðsagnar spámanna og kerlinga sem kölluðust völvur. Það er ekki mikið sem við vitum um það fólk en það er ekki ólíklegt að það hafi haft aðsetur utan hins venjulega samfélags, svona eins og munkar og nunnur seinna.

Trúarathafnirnar, hin svokölluðu blót, hafa verið hræðilegar serimóníur. Sjálft orðið er dregið af orðinu blóð og það var kjarninn í athöfninni. Þar voru dýr skorin á háls og blóðinu skvett útí loftið goðunum til dýrðar. Það var auðvitað hressilega skvett á alla viðstadda. 

Þegar þrælum, börnum og konum var fórnað

Við sérstaklega hátíðlegar athafnir, eins og útfarir eða blót til heiðurs Óðni voru mannfórnir stundaðar. Þar var aðallega fórnað þrælum en líka börnum og konum. Þetta var gjarnan gert með agalegum leikrænum tilburðum og líklega meira af innblásnum anda en eiginlegu ritúali og mismunandi eftir tilefnum og þeim goðum og vættum sem verið var að ákalla í það sinnið.

Stundum blönduðust mannfórnirnar og blóðbaðið kynlífsathöfnum, sérstaklega á vorin þegar brýnt var að ná athygli Freys. Þá var hent í hópnauðganir og konur teknar með valdi og jafnvel drepnar á meðan sem hluti af athöfninni. Þegar við reynum að ímynda okkur þetta þá verðum við að hafa það líka í huga að nær allir eru útataðir í blóði á meðan á þessu stendur.

Þetta atriði telst nokkuð vísindalega staðfest. þessar hræðilegu seremóníur vöktu óhug og athygli útlendinga sem urðu vitni að svona uppákomum og hafa þær heimildir varðveist, eins og í ferðasögu arabíska sendiboðans Ibn Fadlans. Fornleifauppgröftur frá blótstöðum á Norðurlöndum sýnir það sama.

Eins og hundar

Þrælarnir voru sá þjóðfélagshópur sem lægst var settur í virðingarpýramída fornaldar. Þræll gat haft svipaða stöðu og húsdýr. Þegar fólk var hneppt í þrældóm, einhverra hluta vegna, var það svipt mennsku sinni og varð einungis vinnudýr með mennskt útlit. 

Þrælahald hafði tíðkast frá örófi alda í Evrópu og var bara eðlilegur hluti af samfélagsgerðinni á Norðurlöndum. Takmarkaðar heimildir eru til um þrælana og þrælahaldið, aðstæður þeirra, daglegt líf og örlög. Það er minnst á þá í íslenskum fornritum en aldrei með neinum ítarlegum hætti. 

Ef við ímyndum okkur viðhorfið til þeirra þá getum við hugsað okkur viðhorf bændafólks til hunda: Þeir eru fyrst og fremst skepnur sem gera ákveðið gagn og tilfinningasemi heyrir til undantekninga. Það er til dæmis mjög líklegt að þegar fólk var hneppt í þrældóm þá hafi það verið svipt nöfnum sínum en kallað einhverju nafni sem vísaði til útlits, eiginleika eða uppruna. Ég efast til dæmis um það að þrællinn Náttfari, sem á að hafa strokið af skipi Garðars Svavarssonar hafi verið nefndur þetta af foreldrum sínum. Hann hefur heitið eitthvað en verið kallaður annað. Eins og hundur. 

Frægur þrælahaldari

Það er ekki alveg ljóst, ekki frekar en með hunda, hvað fólk átti marga þræla. Auðvitað voru það aðallega höfðingjar sem áttu einhvern fjölda af þrælum og það var örugglega misjafnt eftir efnum og aðstæðum hvað þeir voru margir.

Það var heldur ekki óvenjulegt að farga þrælum sínum þegar þeir voru orðnir lúnir og fá sér nýja. Frjálst fólk, sem ekki var höfðingjar, gat líka átt þræla; einn eða tvo karla og nokkrar ambáttir. 

Ingólfur Arnarson, sem almennt er talinn fyrsti landnámsmaður Íslands var samkvæmt sögunni þrælahaldari. Hann átti amk. tvo nafngreinda þræla og helling af ónafngreindum ambáttum. Hjörleifur bróðir hans átti miklu fleiri þræla en aðeins þrír eru nafngreindir en þeir eru að minnsta kosti miklu fleiri heldur en hið frjálsborna fólk. Sjaldan eða aldrei hafa jafnmargir þrælar komið jafnmikið við sögu en fengið jafnlítinn heiður og við hið svokallaða landnám Íslands.

Þrælarnir og ambáttirnar finnst mér samt svo mikilvægt fólk að ég þarf tvær greinar til að segja sögu þeirra.

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

Connecting to %s

%d bloggers like this: