Caiuby mætti ekki til æfinga hjá Augsburg að loknu vetrarfríi þýska fótboltans og bar þar við persónulegum ástæðum en skýrði það ekkert nánar.
Loks þegar hann skilaði sér aftur, 22 dögum of seint, þá var það ekki til að mæta á æfingar heldur til að mæta beint í partí. Þar birti hann fjölmargar myndir af sér um helgina.
Það var dropinn sem fyllti mælinn hjá forráðamönnum Augsburgar. Stefan Reuter, framkvæmdastjóri félagsins, kallaði Caiuby á fund í gær og rifti þar samningi hans.
Vesenið nú er ekki hið fyrsta á Caiuby. Haustið tók hann lest frá München til Augsburgar án þess að borga. Fyrir það fékk hann 22 þúsund evru sekt hjá þýskum dómstóli. Miðinn hefði kostað 25 evrur. Ári áður hafði hann ráðist á stuðningsmann liðsins í miðbæ Augsburgar.
Caiuby Fransisco da Silva er þrítugur og hefur leikið með Augsburg frá 2014. Áður var hann hjá Ingolstadt og Wolfsburg en hann hefur leikið í Þýskalandi frá 2008. Í 14 leikjum í vetur hefur hann skorað eitt mark og lagt upp annað.